Lífið

Áhuginn kviknaði hjá Warner Brothers

Ágústa Fanney Snorradóttir hóf nám í kvikmyndagerð í Los Angeles í haust. Hún tekur nú upp gamanþætti Ragnhildar Magnúsardóttur sem sýndir eru á Funny or Die.
Ágústa Fanney Snorradóttir hóf nám í kvikmyndagerð í Los Angeles í haust. Hún tekur nú upp gamanþætti Ragnhildar Magnúsardóttur sem sýndir eru á Funny or Die.
Ágústa Fanney Snorradóttir stundar BA-nám í Cinema and Television Arts í Los Angeles. Hún sér að auki um tökur á gamanþáttum útvarpskonunnar Ragnhildar Magnúsdóttur sem sýndir eru á vefsíðunni Funny or Die.

Ágústa Fanney byrjaði ung að gera sín eigin myndbönd og þótti fátt skemmtilegra en að festa viðburði og minningar á filmu. „Árið 2004 fékk ég að fylgjast með starfseminni í Warner Brothers kvikmyndaverinu. Þá var ég í „high school" í Arizona og fjölskylduvinur starfaði fyrir fyrirtækið og ég fékk að fara með honum í vinnuna á hverjum degi í tvær vikur. Þessi fjölskylduvinur sá um hljóðblöndun fyrir viðtöl sem tekin voru við stjörnurnar þannig að á hverjum degi var ég stödd innan um þekktustu stjörnur þessa tíma. Eftir þetta hef ég verið með kvikmyndadellu á háu stigi," útskýrir Ágústa Fanney sem hitti meðal annars aðalleikarana úr Two and a Half Men, The O.C, Bráðavaktinni og Scrubs.

Ágústa flutti út síðasta haust og segir námið skemmtilegt en viðurkennir þó að sér líði stundum eins og hún sé stödd í bandarískri kvikmynd þegar hún mætir í skólann. „Lífið í skólanum er mjög frábrugðið því sem ég upplifði heima á Íslandi, sérstaklega félagslega hliðin."

Ágústa Fanney og Ragnhildur kynntust í gegnum sameiginlega vinkonu og gengur samstarf þeirra vel. Aðspurð segir Ágústa að sér líði vel í Los Angeles og að hún gæti hugsað sér að búa þar og starfa að námi loknu. „Ég get vel hugsað mér að búa hér í framtíðinni. Draumastarfið er að geta unnið á sem fjölbreyttustu sviðum innan kvikmyndagerðar. Þetta er einfaldlega allt svo spennandi."

- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.