Lífið

Átta ára gömul bók á toppnum

Stefán Máni er mjög sáttur við viðbrögðin sem nýja kiljan hefur fengið.
Stefán Máni er mjög sáttur við viðbrögðin sem nýja kiljan hefur fengið. Fréttablaðið/Vilhelm
Svartur á leik eftir Stefán Mána fór beint á toppinn hjá Forlaginu og í annað sætið hjá Eymundsson eftir að hafa verið ófáanleg í mörg ár.

„Það er löngu kominn tími á að lesendur fái þessa bók aftur," segir Stefán Máni, sem ætlar að hrifsa toppsætið hjá Eymundsson af Jo Nesbö í vikunni. „En þetta er flott á fjórum dögum enda átta ára gömul bók."

Svartur á leik kom út fyrir jólin 2004 en toppaði mjög seint að mati Stefáns Mána. „Það var ekkert gert fyrir hana. Hún var ekkert auglýst eða kynnt. Svo kom hún út í kilju strax eftir áramótin og þá rauk hún út. Þetta er svolítil öskubuskusaga," segir hann og á við gömlu kiljuútgáfuna sem seldist í um fimm þúsund eintökum. Það var gamla Mál og menning sem gaf bókina út en Forlagið gefur út þá nýju.

Nýja kiljan er einni blaðsíðu lengri en sú gamla. „Ég skrifaði nýjan og stuttan uppafskafla í hana. Þetta er eins og með súkkulaðistykkin, X-prósent meira. Það er aðeins meiri stæll yfir þessu núna og gaman að hafa leikarana framan á kápunni."

Kvikmyndin Svartur á leik verður frumsýnd hér heima í byrjun mars og Stefán Máni á enn eftir að sjá hana. „Ég hafði tækifæri í desember en var slappur og fór ekkert. Svo hef ég ekkert verið að stressa mig á því en mig langar rosalega að mæta á frumsýninguna og sjá hana í bíó með öllum hinum."

Aðspurður segist hann vera með nýja bók í smíðum og í þetta sinn verður hryllingurinn í fyrirrúmi. „Þetta er stór hrollvekja sem ég er með á teikniborðinu. Ég er mjög spenntur. Ég er búinn að vera skíthræddur sjálfur og ligg andvaka yfir eigin rugli. Það er ágætt." -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.