Tíska og hönnun

LINdælis Öskubuskuævintýri

Kobe Bryant og félagar í LA Lakers reyna af veikum mætti að stöðva Jeremy Lin í leik liðanna á föstudaginn fyrir viku, þar sem bakvörðurinn fór á kostum, skoraði 38 stig og gaf sjö stoðsendingar.
Kobe Bryant og félagar í LA Lakers reyna af veikum mætti að stöðva Jeremy Lin í leik liðanna á föstudaginn fyrir viku, þar sem bakvörðurinn fór á kostum, skoraði 38 stig og gaf sjö stoðsendingar. nordicphotos/getty
Um fátt er meira rætt í íþróttaheiminum þessa dagana en ótrúlegan uppgang Jeremy Lin, leikmanns New York Knicks í NBA, sem var öllum ókunnur fyrir tveimur vikum. Kjartan Guðmundsson leit yfir sögu bakvarðarins sem heillað hefur heimsbyggðina.

LINsanity, LINderella, Super-LINtendo, The Towering LINferno, Mr. LINcredible, All-LIN. Listinn yfir hnyttnar samsetningar sem notaðar hafa verið til að lýsa Jeremy Lin, leikmanni New York Knicks í NBA-körfuknattleiksdeildinni bandarísku, er nánast óendanlegur. Að æði skapist í kringum tiltekna leikmenn í íþróttinni eru engin nýmæli en hamagangurinn í kringum Lin er sérstakur á margan hátt. Fyrir einungis tveimur vikum var hann flestum ókunnur en er nú forsíðuefni víðast hvar á byggðu bóli. Ástæðan er fyrst og fremst hreint ótrúleg spilamennska í fyrstu leikjum hans sem byrjunarliðsmaður í NBA, en það er ótal margt fleira í fari og sögu Jeremy Lin sem hefur heillað heimsbyggðina.

Hógvær hagfræðingurFyrir það fyrsta er Lin Bandaríkjamaður af taívönskum uppruna (foreldrar hans fluttu til Bandaríkjanna frá Taívan á áttunda áratugnum), sá fyrsti til að spila í NBA-deildinni, og höfðar þannig mjög til risavaxins hóps sem kann vel að meta nýbreytnina. Sem dæmi um takmarkaðar vinsældir körfuknattleiks í asískum samfélögum, að minnsta kosti lengi framan af, var Lin stöðvaður af miðasölumanni þegar hann sótti fyrsta körfuboltaleikinn sinn í San Francisco, nærri heimaborginni Palo Alto í Kaliforníufylki, og sagt að hann væri líklega að ruglast. Það kvöldið væri ekkert blak á dagskrá heldur bara körfubolti. Aðeins fjórir bandarískir leikmenn af asísku bergi brotnir hafa leikið í þessari vinsælu deild og slíkir brautryðjendur hafa alltaf ákveðinn sjarma, svo ekki sé minnst á þegar menn ryðjast fram á sjónarsviðið með slíkum bægslagangi.

Sjálfur þykir Lin þó með hógværari mönnum, eins og margsinnis hefur sýnt sig á blaðamannafundum síðustu tvær vikurnar. Hann víkur sér fimlega undan tíðum spurningum um sjálfan sig og frammistöðu sína og kýs heldur að beina athyglinni að liðsheildinni og hæfileikum þjálfarans Mike D‘Antoni. Raunar segist Lin lítil umráð hafa yfir því hvert ferill hans stefnir: slíkt sé í höndum sjálfs guðs almáttugs. Slíkir skapgerðareiginleikar hljóta að hafa verið Lin ómetanlegir þegar hvorki gekk né rak í boltanum í upphafi NBA-ferilsins, sé miðað við sýnilega hæfileika og metnað leikmannsins.

Þá er ótalin sú staðreynd að Lin er útskrifaður hagfræðingur frá Harvard, skóla sem hefur í gegnum tíðina verið þekktur fyrir allt annað en afrek á íþróttasviðinu. Harvard hefur reyndar getið af sér tvöfalt fleiri Bandaríkjaforseta (átta) en NBA-leikmenn (fjóra), sem gerir uppgang þessa 23 ára leikmanns enn merkilegri. Í íþróttafræðunum er talað um olnbogabörn, ólíklega lítilmagna, og Lin passar eins og flís við rass við lýsinguna.

Milli skips og bryggjuÁstæða þess að enginn kveikti fyrir alvöru á möguleikunum sem búa í Jeremy Lin fyrr en fyrir tveimur vikum er af mörgum talin ofannefnd staðreynd: dvöl hans í einum af fremstu háskólum Bandaríkjanna. Í skotheldu skoðunarkerfi þar sem litið er á nánast alla efnilega leikmenn, hvar sem er í heiminum, er í raun ótrúlegt að Lin hafi fallið milli skips og bryggju í sjálfum Bandaríkjunum. Aðrir hafa velt upp þeim möguleika að staðalímyndin sem gerir sjálfkrafa ráð fyrir að Asíumenn sér lélegir körfuboltamenn hafi haft sitt að segja.

Í öllu falli dugði góð frammistaða Lin með háskólaliði Harvard honum skammt þegar kom að nýliðavalinu árið 2010, en þar vildi ekkert NBA-lið velja Lin. Óvalinn komst hann þó að hjá liðinu sem hann studdi sem ungur drengur, Golden State Warriors, fékk lítið að spila þrátt fyrir góðan stuðning frá áhorfendum af asískum uppruna, og var að lokum látinn fara í byrjun desember síðastliðins. Við tók örstutt dvöl hjá Houston Rockets áður en New York Knicks tók við honum rétt eftir jól, en þar var Lin hugsaður sem fjórði valkostur í bakvarðarstöðuna.

Ballið byrjar gegn NetsUm miðjan janúar lét Knicks Lin spila einn leik í varadeildinni (D-League), þar sem hann lék vel og var kallaður aftur í aðalliðið. Þó voru forráðamenn liðsins komnir á fremsta hlunn með að losa sig við bakvörðinn, en vegna slakrar spilamennsku og meiðsla annarra leikmanna fékk Lin tækifæri og kom inn á af bekknum í leik gegn New Jersey Nets þann 4. febrúar. Í þeim leik byrjaði ballið og Lin fór á kostum, skoraði 25 stig og gaf sjö stoðsendingar í 99-92 sigri Knicks.

Tveimur dögum síðar lék Lin sinn fyrsta leik í byrjunarliði í NBA gegn Utah Jazz, skoraði 28 stig og gaf átta stoðsendingar og áhorfendur ætluðu vart að trúa því sem þeir sáu. Dagarnir síðan hafa verið samfelld sigurganga fyrir Lin og Knicks, sem hafði unnið sjö leiki í röð fram að viðureigninni við New Orleans Hornets í nótt og kveikt elda í hjörtum aðdáenda liðsins á ný eftir ansi mörg mögur vonbrigðaár. Þetta hefur reynst mögulegt þrátt fyrir að helstu stjörnur liðsins hingað til, Carmelo Anthony og Amar‘e Stoudemire hafi ekki leikið með liðinu framan af. Meðal hápunkta á þessari ótrúlegu sigurgöngu eru glæsilegur sigur gegn Los Angeles Lakers, þar sem Lin skoraði 38 stig, fjórum fleiri en stórstjarnan Kobe Bryant, og þriggja stiga sigurkarfa á síðustu sekúndu leiks gegn Minnesota Timberwolves.

Lin er fyrsti NBA-leikmaðurinn sem skorar yfir tuttugu stig og gefur í minnsta lagi sjö stoðsendingar í fyrstu fjórum leikjum sínum sem byrjunarliðsmaður. Frá árinu 1985 höfðu aðeins fjórtán leikmenn náð að minnsta kosti tuttugu stigum, sjö stoðsendingum og stolnum bolta í sex leikjum í röð. Jeremy Lin hefur nú bæst í þennan hóp, sem telur meðal annarra þá Magic Johnson, Michael Jordan, LeBron James og Chris Paul. Lin fetar því ekki í fótspor neinna smámenna þessa dagana. Fregnir herma að hann hafi nú fest kaup á íbúð í stóra eplinu, en fyrir tveimur vikum var hann svo óviss um framtíð sína að hann gisti á sófanum hjá bróður sínum.

Heppni eða ekki?Slíkum Öskubuskusögum fylgja óhjákvæmilega efasemdir ýmissa. Buzz Bissinger hjá veftímaritinu The Daily Beast segir eina helstu ástæðu Lin-æðisins þá að hann sé leikmaður Knicks, „þess ömurlega liðs sem mistekst allt sem það reynir. Hvaða óþekkti leikmaður sem er, sem á nokkra góða leiki í röð og virðist virkilega njóta þess að spila körfubolta, verður ýktur og auglýstur fram yfir öll skynsemismörk,“ segir Bissinger og bætir við að slíkt æði hefði aldrei orðið ef um væri að ræða svartan leikmann en ekki af asísku bergi brotinn.

Tölfræðingurinn og rithöfundurinn Nate Silver bendir á hinn bóginn á að árangur Lin geti hreinlega ekki verið tilviljun. „Körfubolti byggir mun minna á heppni en til dæmis hafnabolti, sérstaklega hjá bakverði sem er svo mikið með boltann í hverjum leik. Miðlungs bakvörður gæti hugsanlega náð einni slíkri leikjaröð á ferlinum, en mun líklegra er að hún beri vitni um gæði stjörnuleikmanns.“

Í öllu falli er ljóst að Jeremy Lin hefur vakið meiri athygli en flestir aðrir leikmenn síðustu ár og jafnvel áratugi í íþróttaheiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×