Lífið

Kvikmyndaskóli Íslands verður hluti af „klíkunni“

Hilmar segir það mikinn heiður að hafa fengið inngöngu í alþjóðasamtökin Cilect.
Hilmar segir það mikinn heiður að hafa fengið inngöngu í alþjóðasamtökin Cilect. fréttablaðið/gva
Kvikmyndaskóli Íslands verður í vor vígður inn í alþjóðasamtök helstu kvikmyndaskóla heimsins, Cilect. Mikill heiður, að mati Hilmars Oddssonar.

„Þetta er rosalega ánægjulegt og mikill heiður,“ segir Hilmar Oddsson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands.

Skólinn hefur verið samþykktur inn í alþjóðasamtök helstu kvikmyndaskóla heimsins. Þau nefnast Cilect og voru stofnuð árið 1955. Aðeins 130 kvikmyndaskólar í heiminum eiga aðild að þeim og telst það mikill gæðastimpill að komast þangað inn.

„Það skiptir mjög miklu máli að vera í þessum samtökum. Í öllum okkar erfiðleikum þótti okkur alltaf sorglegt að vera nánast búin að sigra heiminn en þurfa að berjast fyrir tilvist okkar á Íslandi. Við vitum ekki nákvæmlega hvað verður um okkur en við erum samt komin með alþjóðlega viðurkenningu,“ segir Hilmar, sem er kominn aftur til starfa sem rektor eftir að hafa hætt störfum tímabundið í fyrra. „Núna verðum við hluti af ákveðnu gæða- og verndunarkerfi. Cilect heldur tvö til þrjú þing á hverju ári og þarna eru nemendaskipti, skipti á kennurum og við komumst inn á alls konar hátíðir. Við erum komin inn í ákveðið samfélag og erum bara hluti af „klíkunni“. Það er ofsalega mikilvægt.“

Kvikmyndaskóli Íslands verður formlega vígður inn í skólann á aðalfundi Cilect sem verður haldinn í Höfðaborg í Suður-Afríku í byrjun maí og þar verður Hilmar viðstaddur.

Skólinn sótti um að komast í samtökin fyrir ári síðan. Enski kvikmyndaframleiðandinn Nik Powell, sem er skólastjóri The National Film and Television School í London og stofnaði á sínum tíma Virgin Group ásamt Richard Branson, kom hingað til lands í fyrra á vegum Cilect. Hann gerði úttekt á starfsemi Kvikmyndaskólans og gaf henni hæstu einkunn. Þetta var áður en rekstrarvandræði skólans komust í fréttirnar. „Hann fór í gegnum allt kerfið og námsskrána og svo skrifaði hann skýrslu sem varð til þess að okkur var boðin þátttaka,“ segir Hilmar og bætir við að bæði Powell og stjórnendur annarra kvikmyndaskóla hafi haft mikinn skilning á vandræðum skólans. „Við sendum alltaf skýrslur út og sögðum hvað var í gangi. Við fengum mjög eindregið stuðningsbréf frá þessum manni. Við erum ekki eini skólinn í heiminum sem hefur þurft að berjast fyrir tilveru sinni.“

Vegna fjaðrafoksins í kringum Kvikmyndaskólann tafðist starfsemi hans og núna er að ljúka önn sem átti að klárast fyrir jól. Útskriftarmyndir verða sýndar í Bíói Paradís í næstu viku. „Við erum með tveggja anna samning við ráðuneytið og vitum ekki hvort ætlunin er að semja við okkur eftir næstu vorönn,“ greinir Hilmar frá en nokkur pláss fyrir nemendur eru enn laus fyrir næstu önn. „Það veikir okkur út á við ef við höldum ekki fullri reisn og njótum ekki almenns stuðnings. Ef ráðamenn þjóðarinnar kæra sig um er þetta skóli sem getur átt glæsilega framtíð fyrir sér.“

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.