Enski boltinn

City þarf að komast aftur á skrið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Terry er meiddur á hné og verður ekki með Chelsea gegn United.
John Terry er meiddur á hné og verður ekki með Chelsea gegn United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Árið hefur ekki byrjað nógu vel hjá Manchester City en liðið hefur ekki nema unnið þrjá af síðustu níu leikjum sínum í öllum keppnum. Liðið hefur á síðustu vikum fallið úr leik í bæði bikarnum og deildabikarnum og í vikunni náðu grannarnir í Manchester United að jafna liðið að stigum á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

City-menn eiga þó ágætis möguleika á að endurheimta forystuna um helgina. Fyrirfram má áætla að verkefni liðsins um helgina sé talsvert auðveldara en hjá Manchester United og Tottenham sem koma í næstu sætum á eftir. City mætir Fulham á heimavelli í dag en United þarf að fara á erfiðan útivöll og leika gegn Chelsea á morgun. Hið sama á við um Tottenham sem mætir Liverpool á Anfield á mánudagskvöldið.

Líkurnar á því að City misstígi sig gegn Fulham í dag eru ekki miklar. Liðið er með 100 prósenta árangur í deildinni á heimavelli – hefur unnið alla ellefu leiki sína með markatölunni 34-6.

Íslendingaliðin QPR og Wolves mætast í dag en þar sem Heiðar Helguson er frá vegna meiðsla mun hann ekki spila með fyrrnefnda liðinu. Eggert Gunnþór Jónsson var í byrjunarliði Wolves í vikunni er liðið tapaði fyrir Liverpool.

Gylfi Þór Sigurðsson verður væntanlega í liði Swansea sem mætir West Brom, rétt eins og Grétar Rafn Steinsson hjá Bolton sem mætir Norwich.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×