Bókin kom út samhliða opnun sýningar í Þjóðminjasafninu, þar sem sjá má fjölda þjóðbúninga sem Magnea saumaði á sig og afkomendur sína. Magnea var eiginkona Sigurbjörns Einarssonar biskups. Margir muna eftir því að hún var hún jafnan í búningi þegar hún kom fram opinberlega við hlið hans. „Hún var alltaf í búningi og það fannst manni alveg eðlilegt," rifjar Aldís upp. „Jafnvel þegar við fórum saman í lautarferð, fjölskyldan, þá mætti amma í lopapeysu, en í peysufötum eða upphlut innan undir. Þegar hún varð biskupsfrú þurfti hún að fara í margar veislur og hefði ef til vill þurft að eignast marga kjóla fyrir þær. Hún leysti það með því að búa sér til fallegan skautbúning sem hentaði fyrir flest tilefni. Það var dálítið sniðugt hjá henni."
Í bókinni eru verk Magneu skoðuð í tímaröð, allt frá fyrsta nálapúðanum sem hún saumaði fimm ára gömul, til þeirra verka sem hún vann á efri árum, en hún var með eitthvað í höndunum fram á síðustu stundu. Á meðal þeirra dýrgripa sem afkomendur Magneu eiga eftir hana er fjöldi heklaðra og prjónaðra skírnarkjóla, rúmteppi sem brúðhjón fengu í brúðkaupsgjöf og listilega útsaumaðir dúkar, svo fátt eitt sé nefnt.
Hugmyndin að bókinni um verk Magneu kom upp á frænkufundi þegar árið 2011 nálgaðist, en það ár hefðu þau Sigurbjörn og Magnea bæði orðið hundrað ára. Það eru systurnar Halla og Edda Kjartansdætur og Harpa Árnadóttir, frænkur Aldísar, sem ritstýra bókinni. Fleiri frænkur komu jafnframt að hugmyndavinnunni.
„Frú Magnea var alveg mögnuð fyrirmynd og við lítum allar mikið upp til hennar. Á þessum tímamótum langaði okkur að varpa ljósi á þau listaverk, sem hún skildi eftir sig. Amma var mjög hógvær, og fer örugglega smá hjá sér núna," segir Aldís um langömmu sína. „Það var merkilegt að uppgötva hversu ótrúlegt magn af listaverkum er til eftir hana. Hún sem kom upp átta börnum, hélt heimili og stóð þétt við bakið á eiginmanni sínum í erilsömu embætti. Afkomendur þeirra í dag eru 87."

Opnunin á sýningunni í Þjóðminjasafninu síðastliðinn laugardag var vel sótt og margir virtust áhugasamir um verk Magneu, en allar þær bækur sem safnið hafði tryggt sér seldust upp á opnunardaginn. „Það hefur verið ótrúlega gaman að finna fyrir áhuganum, þetta hefur verið svo persónulegt verkefni fyrir okkur sem stöndum að því," segir Aldís.
Sýningin stendur í Þjóðminjasafninu fram til 28. ágúst.
holmfridur@frettabladid.is