Fótbolti

Leikmenn í Færeyjum fá greitt undir borðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jens Martin Knudsen.
Jens Martin Knudsen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Færeyskir knattspyrnumenn fá í mörgum tilfellum laun sín greidd undir borðið og greiða því ekki skatt af tekjum sínum. Þetta kemur fram í nýútkominni ævisögu færeyska markvarðarins Jens Martins Knudsen.

Knudsen, sem öðlaðist heimsfrægð fyrir að skarta hvítri húfu á knattspyrnuvellinum og spilaði um tíma með Leiftri frá Ólafsfirði, segir í samtali við færeyska ríkissjónvarpið að vandamálið hafi hafist þegar færeysk félög fengju auknar tekjur úr sjóðum Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA.

Í fréttinni kemur fram að bestu leikmennirnir í færeyska boltanum þéni um 30-40 þúsund danskar krónur á mánuði eða sem nemur um 600-800 þúsund íslenskum krónum.

Hefur skaðleg áhrif á landslið Færeyinga

Knudsen heldur því fram að færeyska knattspyrnulandsliðið beri skaða af því að leikmenn félagsliðanna fái í flestum tilfellum greitt undir borðið. Það helgist af því að leikmennirnir uppskeri sambærilegar tekjur og þær sem þeir gætu fengið í dönsku úrvalsdeildinni þar sem þeir þyrftu að greiða skatt af tekjum sínum.

Leikmennirnir kjósi því að spila knattspyrnu í heimalandinu þar sem þeir geta ennfremur unnið ásamt því að iðka knattspyrnu. Þeir fari því ekki utan, þrói sinn leik og bæti sig sem leikmenn.

Forseti færeyska knattspyrnusambandsins segir í samtali við færeyska ríkissjónvarpið að sambandið vinni að því ásamt skattayfirvöldum að leysa vandann sem til staðar sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×