Enski boltinn

Rosicky framlengir við Arsenal: Ég elska félagið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rosicky á ferðinni í sigurleiknum gegn AC Milan í síðustu viku.
Rosicky á ferðinni í sigurleiknum gegn AC Milan í síðustu viku. Nordic Photos / Getty
Tékkinn Tomas Rosicky hefur framlengt samning sinn við Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Fyrri samningur kappans hefði runnið út í vor.

„Það er mikill heiður að skrifa undir nýjan samning við Arsenal. Ég elska félagið og klæðist treyju félagsins með stolti. Mér hefur liðið eins og heima hjá mér frá því ég gekk til liðs við félagið fyrir sex árum og gæti ekki verið ánægðari með að framlengja," sagði miðjumaðurinn léttleikandi.

Segja má að Rosicky hafi unnið fyrir nýjum samningi með frammistöðu sinni að undanförnu. Hann, líkt og fleiri leikmenn Arsenal, olli vonbrigðum framan af móti. Líklega vonuðust fæstir stuðningsmenn Arsenal eftir því að samningurinn yrði framlengdur á þeim tímapunkti.

Rosicky hefur hins vegar minnt á gamla tíma með frammistöðu sinni að undanförnu. Þar standa upp úr viðureignir Arsenal á heimavelli í sigrum á Tottenham og AC Milan þar sem hann var á skotskónum og spilaði einkar vel.

„Ég tel okkur hafa hæfileikaríkann hóp af leikmönnum og með þennan stjóra er framtíðin björt. Það hefur alltaf verið draumur að vinna titla með Arsenal og ég ætla að leggja mikið á mig til að láta hann rætast," sagði Rosicky en lítil notkun hefur verið á lyklinum að verðlaunaskáp Arsenal undanfarin ár.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, var hæstánægður með tíðindin.

„Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi hæfileika Rosicky og mjög ánægður að hann hafi skuldbundið sig til lengri tíma við félagið," sagði Wenger.

Enn hefur ekki verið gefið upp til hversu langs tíma nýi samningur Rosicky við Arsenal er.

Rosicky verður væntanlega í liði Arsenal sem tekur á móti Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Arsenal hefur unnið síðustu fjóra leiki sína í deildinni og eru farnir að anda ofan í hálsmálið á erkifjendunum Tottenham sem sitja í fjórða sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×