Fótbolti

Roy Hodgson: Þetta var frábær leikur fyrir Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson og Wayne Rooney
Roy Hodgson og Wayne Rooney Mynd/AP
Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins, var að sjálfsögðu í skýjunum eftir sigur á Úkraínu á EM í kvöld en með honum tryggðu Englendingar sér sigur í sínum riðli og leik á móti Ítalíu í átta liða úrslitunum.

„Það hefðu ekki margir trúað því fyrir mótið að við myndum vinna riðilinn og margir spáðu því meira að segja að við kæmumst ekki upp úr riðlinum. Þetta var erfitt í kvöld enda voru 60 þúsund manns á vellinum og aðeins fjögur þúsund þeirra voru hugrakkir Englendingar. Þetta var frækin frammistaða og við höfðum líka heppnina með okkur," sagði Roy Hodgson.

„Markið kom ekkert í kjölfarið af bættum leik enda vorum við ekki nægilega yfirvegaðir í skyndisóknunum og það er eitthvað sem við getum unnið í. Liðið er enn að læra að fljúga og við erum að vinna í okkar leik," sagði Hodgson sem gladdist fyrir hönd Wayne Rooney sem skoraði sigurmarkið í leiknum í sínum fyrsta leik eftir tveggja leikja bann.

„Þessi leikur var frábær fyrir Rooney. Hann spilaði vel og vann vel fyrir liðið. Hann hefði líka getað skorað nokkur mörk í kvöld. Við vorum hættulegir í skyndisóknunum en getum líka verið enn hættulegri," sagði Hodgson.

„Þetta snýst líka um að spila rétt út úr þeim aðstæðum sem liðið er í. Við vissum að Frakkar voru að tapa og jafntefli hefði nægt til að vinna riðilinn. Við vorum því varkárir," sagði Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×