Innlent

Rúmur meirihluti vill Ólaf Ragnar áfram

Lillý Valgerður Pétursdóttir. skrifar
Rúmur meirihluti þjóðarinnar vill að Ólafur Ragnar Grímsson gefi aftur kost á sér í forsetaembættið. Þetta sýnir ný könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins.

Ólafur Ragnar gaf sterklega í skyn í nýársávarpi sínu að hann ætli sér ekki að sækjast eftir endurkjöri næsta sumar. Ólafur lýkur þá sínu fjórða kjörtímabili en hann tók við embætti forseti árið 1996. Mörgum þótti sem Ólafur hefði þó ekki útilokað í ræðu sinni að bjóða sig aftur fram. Fjölmargir hafa því stigið fram og skorað á hann að gefa áfram kost á sér.

Fréttastofa ákvað að kanna hvort að landsmenn vilja almennt að Ólafur bjóði sig aftur fram. Niðurstaðan er ekki afgerandi en engu að síður sýnir ný skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins að meirihluti þjóðarinnar vill að Ólafur gefi áfram kost á sér.

54% vilja að Ólafur sækist eftir því að gegna embættinu í fimmta sinn en 46% vilja hins vegar að hann láti gott heita og hætti í sumar.

Lítill munur er á afstöðu kynjanna. Ólafur virðist eiga fleiri stuðningsmenn á landsbyggðinni. Þar vilja rúm sextíu prósent að hann bjóði sig aftur fram en í höfuðborginni 50%.

Þá er yngra fólk frekar á því að hann eigi að sækjast eftir endurkjöri. 59% þeirra sem eru á aldrinum 18-49 ára vilja að bjóði sig aftur fram en aðeins 46% þeirra sem hafa náð sextugsaldri.

Þá er nokkur munur á afstöðu fólks eftir því hvaða flokk það styður. Af þeim sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn ef að kosið yrði nú þá vilja 63% að Ólafur sækist eftir endurkjöri en aðeins 32% þeirra sem styðja Samfylkinguna.

Hringt var í átta hundruð manns áttunda og níunda febrúar síðastliðinn sem valdir voru með slembivali úr þjóðskrá. Níutíu prósent tóku afstöðu til spurningarinnar.

Þrátt fyrir ítrekaðar óskir fréttastofu hefur forsetinn ekki verið tilbúinn að veita viðtal um hvort að til greina komi að hann sækist eftir endurkjöri.

Framboðsfrestur til forseta rennur út eftir rúma þrjá mánuði og hefur enn enginn gefið kost á sér. Ætla má margir séu að bíða eftir að Ólafur skýri mál sitt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×