Enski boltinn

Kuyt tryggði Liverpool sigur á United

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Varamaðurinn Dirk Kuyt var hetja Liverpool á Anfield í dag þegar liðið lagði Manchester United 2-1 í 4. umferð enska bikarsins. Hollendingurinn skoraði sigurmarkið tveimur mínútum fyrir leikslok.

Flest stefndi í 1-1 jafntefli enda afar fá færi í síðari hálfleiknum. Þá sendi Pepe Reina langan bolta fram völlinn, Andy Carroll framlengdi knöttinn inn á Kuyt sem sendi knöttinn í nærhornið. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu markinu ekki síður vel þar sem Patrice Evra var sá sem átti að hafa gætur á Hollendingnum.

Heimamenn komust yfir um miðjan fyrri hálfleikinn. Steven Gerrard tók hornspyrnu beint á kollinn á Dananum Daniel Agger sem skallaði knöttinn í netið. Leikmenn Liverpool fjölmenntu á markteig United og staðsetti Andy Caroll sig þannig að David De Gea, markvörður United, komst ekki að knettinum. Greinilegt að Liverpool-menn ætluðu að pressa á De Gea sem hefur virkað afar óöruggur í marki liðsins á leiktíðinni.

United sótti í sig veðrið í kjölfarið og tókst að jafna metin skömmu fyrir leikhlé. Rafael nýtti sér mistök Jose Enrique og sendi fyrir á Ji Sung Park sem sendi knöttinn rakleiðis í nærhornið.

Fátt markvert gerðist í síðari hálfleiknum þar til Kuyt tryggði Liverpool sigur og um leið sæti í 5. umferð enska bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×