Enski boltinn

Leikmenn QPR og Chelsea tókust ekki í hendur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Anton Ferdinand þurfti ekki að taka í höndina á John Terry fyrir leikinn í dag.
Anton Ferdinand þurfti ekki að taka í höndina á John Terry fyrir leikinn í dag. Getty Images / Nordic Photos
Nú stendur yfir viðureign QPR og Chelsea í 4. umferð enska bikarsins í knattspyrnu. Leikmenn liðanna heilsuðust ekki fyrir leikinn líkt og tíðkast og hefur enska knattspyrnusambandið sent frá sér yfirlýsingu þess vegna.

„Í kjölfar viðræðna hjá fulltrúum félaganna og knattspyrnusambandsins á föstudagskvöld og laugardagsmorgun hefur verið ákveðið að leikmenn liðanna muni ekki heilsast fyrir leik líkt og venja er," sagði í yfirlýsingunni.

Knattspyrnusambandið segist hafa samþykkt þetta vegna þeirrar spennu sem ríkir milli félaganna. Rannsókn á meintum kynþáttaníð John Terry í garð Anton Ferdinand í viðureign liðanna í deildinni fyrir áramót stendur enn yfir.

Málið var svo enn alvarlegra í vikunni þegar Ferdinand fékk byssukúlu send heim til sín í pósti. Í kjölfarið réð Ferdinand öryggisverði sem fylgja honum hvert fótmál.

Frægt er þegar Wayne Bridge tók ekki í hönd John Terry í viðureign Chelsea og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um árið. Bridge var þá allt annað en sáttur við Terry sem hafði sofið hjá fyrrum eiginkonu Bridge. Atvikið vakti mikla athygli og greinilegt að QPR og Chelsea hafa viljað forðast álíka atvik í leik dagsins.

Leikurinn er í beinni textalýsingu hér á Vísi og í beinni sjónvarpsútsendingu á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×