Enski boltinn

Joe Hart: Balotelli er líklega besta vítaskyttan í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli skoraði sigurmarkið á móti Tottenham úr víti.
Mario Balotelli skoraði sigurmarkið á móti Tottenham úr víti. Mynd/Nordic Photos/Getty
Joe Hart, markvörður Manchester City, er sannfærður um að liðsfélagi hans, Mario Balotelli, taki öruggustu vítaspyrnur í heiminum í dag. Fjögur af ellefu mörkum Balotelli á tímabilinu hafa komið úr vítaspyrnum og hann hefur alltaf skorað af miklu öryggi.

Joe Hart varði vítaspyrnu Scott Sinclair hjá Swansea í síðasta deildarleik en segist aldrei eiga möguleika á að verja víti Mario Balotelli á æfingum.

„Já ég verða að viðurkenna það að hann er líklega besta vítaskyttan í heimi. Hann hefur þennan klikkaða hæfileika að þurfa ekki að horfa á boltann. Ef þú hreyfir þig ekki þá setur hann boltann í hornið en ef þú skutlar þér þá setur hann boltann í hitt hornið. Það nánast ómögulegt að verja vítin hans," sagði Joe Hart í viðtali á heimasíðu Manchester City.

Joe Hart er samt ekki búinn að gefa upp alla von ef hann þarf að verja víti frá Balotelli fari svo að Englendingar og Ítalir mætist á Evrópumótinu í sumar.

„Ég þarf að komast inn í hausinn hans og ég veit það að ef England mætir Ítalíu þá mun ég geta varið víti frá honum," sagði Hart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×