Fótbolti

Morten Olsen hefur aldrei tapað gegn Þjóðverjum

Morten Olsen þjálfari Dana hefur aldrei tapað sem þjálfari gegn Þjóðverjum.
Morten Olsen þjálfari Dana hefur aldrei tapað sem þjálfari gegn Þjóðverjum. AP
Danir og Þjóðverjar eigast við í lokaumferð B-riðilsins á Evrópumeistaramótinu í fótbolta karla í kvöld og Danir þurfa að fá í það minnsta eitt stig úr þessum leik til þess að komast áfram. Joachim Löw þjálfari þýska liðsins hrósaði því danska á fundi með fréttamönnum í gær en þar fékk hann að vita af því að Morten Olsen þjálfari danska liðsins hefur aldrei tapað gegn Þjóðverjum sem þjálfari.

„Það kemur á óvart, ég vissi það ekki," sagði Löw í gær. „Við gerðum 2-2 jafntefli við Dani eftir Heimsmeistaramótið 2010 en þar komumst við í 2-0. Við munum gera okkar besta og fyrr eða síðar mun Morten Olsen upplifa tapleik gegn Þýskalandi," bætti Löw við.

Að sögn þýska þjálfarans eru Danir með gríðarlega heilsteypt lið. „Við höfum vissulega tekið eftir einstökum leikmönnum danska liðsins. Það sem einkennir Dani er sterk liðsheild, þeir vinna vel án þess að margir taki eftir því sem þeir eru að gera. Þeir eru klókir og með lfrábæra eikmenn á borð við Daniel Agger og Christian Eriksen," sagði Löw.

Ef Danir ná jafntefli gegn Þjóðverjum dugir það Dönum til að komast áfram – að því gefnu að Hollendingar sigri Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×