Erlent

Fríblað að ganga "landsblaði“ Ísraela af dauðu

Starfsmenn blaðsins mótmæltu sölunni harðlega fyrr í mánuðinum.
Starfsmenn blaðsins mótmæltu sölunni harðlega fyrr í mánuðinum.
Ísraelska dagblaðið Maariv daily er á síðasta snúningi ef marka má frétt fréttaveitu AP en þar kemur fram að hið 64 ára gamla dagblað, sem er þekkt í Ísrael sem „landsblaðið", hafi verið selt til keppinautar og nú blasir við að um tvö þúsund starfsmönnum blaðsins verið sagt upp.

Fall blaðsins má að nokkru leyti rekja til spilavíta-mógúlsins Sheldon Andelson, sem er bandarísk-ísraelskur ríkisborgari og að auki einn af kröftugustu stuðningsmönnum Mitt Romney, frambjóðanda Repúblikanaflokksins til forseta Bandaríkjanna. Hann er einnig góður vinur forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu.

Andelson stofnaði fyrir fimm árum síðan dagblað sem byggir nokkurnveginn á sömu hugmyndafræði og Fréttablaðið hér á landi. Blaðið heitir Israel Hayom, eða Israel Today, og er fríblað. Blaðið hefur nánast sölsað undir sig þröngan dagblaðamarkað í Ísrael, en aðeins fjögur hebresk landsblöð eru í Ísraels, sem telur um átta milljónir íbúa.

Fari svo að blaðið verði slegið af verða aðeins þrjú eftir, og Israel Today myndi tróna á toppnum. Þessi staða hefur valdið stjórnmálamönnum miklum áhyggjum og meðal annars hefur verið biðlað til Netanyahu að grípa í taumana svo blaðið fari ekki á hausinn. Svar hans er hinsvegar einfalt, „eina stundina er mér sagt að láta fjölmiðla í friði, hina stundina á ég að bjarga einstaka fjölmiðli," sagði Netanyahu. „Þið hljótið að sjá þversögnina," bætti hann við.

Nýr eigandi blaðsins, ísraelski kaupsýslumaðurinn Shlomo Ben-Tzvi, sem rekur afar hægri sinnaða fjölmiðlasamsteypu, hefur tilkynnt að hann muni reka alla starfsmenn blaðsins og endurráða á milli 300 til 400 aftur. Þó er ekki ljóst hvort blaðið muni halda áfram að koma út, en það er ljóst að slík útgáfa yrði aldrei eins og á gulltímabili blaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×