Enski boltinn

Kolo Touré: Myndi elska það ef Carlos Tevez tryggði City titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez og Kolo Touré.
Carlos Tevez og Kolo Touré. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kolo Touré, miðvörður Manchester City, bíður spenntur eftir því að Carlos Tevez fari að spila aftur með liðinu en það bendir allt til þess að það gæti gerst í næsta deildarleik sem er á móti Chelsea á miðvikudaginn.

„Það væri frábært ef hann gæti spilað á móti Chelsea því honum hefur gengið mjög vel á móti þeim. Ég myndi elska það ef Carlos Tevez tryggði okkur titilinn því hann er að mínu mati frábær leikmaður. Svona vandamál geta komið upp en hæfileikarnir eru þarna ennþá," sagði Kolo Touré

„Það er frábært að fá hann inn í hópinn aftur. Hann getur skorað mörk og er mjög öflugur leikmaður," sagði Kolo Touré

„Við þekkjum allir Carlos og vitum hversu góður leikmaður hann er. Það mun hjálpa okkur að fá inn leikmann eins og hann. Þetta er góður tími til að fá svona liðstyrk," sagði Kolo Touré.

Carlos Tevez hefur ekki leikið með Manchester City síðan í deildarbikarleik á móti Birmingham í september en hann hefur verið að æfa hjá félaginu undanfarnar vikur eftir að hann snéri aftur eftir að hafa farið í leyfisleysi til Argentínu í marga mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×