Fótbolti

Gomez með sigurmark Þjóðverja á móti Portúgal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Mario Gomez tryggði Þjóðverjum 1-0 sigur á Portúgal á EM í kvöld með frábærum skalla 18 mínútum fyrir leikslok en þetta var fyrsta leikur liðanna í B-riðli Evrópumótsins í fótbolta. Þjóðverjar eru á toppi riðilsins ásamt Dönum sem unnu Hollendinga óvænt fyrr í dag.

Þjóðverjar voru langt frá því að vera sannfærandi í þessum leik en þeir unnu þarna mikilvægan seiglusigur og eru áfram til alls líklegir á þessu móti. Portúgalir spiluðu skipulega og voru nokkrum sinnum nálægt því að skora undir lokin en það tókst ekki.

Þjóðverjar byrjuðu af krafti í leiknum en fljótlega datt leikur liðsins niður og þeim gekk illa að skapa sér færi á móti skipulögðu portúgölsku liði. Portúgalir voru alltaf hættulegir í skyndisóknum sínum og þeir áttu líka besta færi hálfleiksins þegar Pepe skaut í slánna og niður á lokamínútu fyrri hálfleiksins.

Það var lítið um færi í seinni hálfleiknum en Þjóðverjar náðu að skora markið sitt á 72. mínútu þegar Mario Gomez skoraði með flottum skalla eftir fyrirgjöf frá Sami Khedira. Þegar Gomez skoraði markið sitt þá leit út fyrir að hann væri á leiðinni útaf fyrir Miroslav Klose en Gomez fékk nokkrar mínútur til viðbótar eftir markið.

Portúgalir sóttu í sig veðrið á lokakafla leiksins. Fyrirgjöf Nani endaði ofan á slánni á 85. mínútu og á 88. mínútu fékk varamaðurinn Silvestre Varela dauðafæri en Manuel Neuer varði frábærlega. Nani skaut líka í varnarmann úr góðu færi í uppbótartíma leiksins. Þjóðverjar héldu hinsvegar út og fögnuðu mikilvægum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×