Fótbolti

Willems sló metið hans Scifo - yngstur til að spila á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jetro Willems.
Jetro Willems. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jetro Willems, vinstri bakvörður Hollendinga setti nýtt met í dag þegar hann var í byrjunarliði Hollands á móti Danmörku í fyrsta leik liðanna í B-riðli EM í fótbolta. Willems er nú yngsti leikmaðurinn til að spila í úrslitakeppni EM frá upphafi.

Jetro Willems er aðeins 18 ára og 71 dags gamall í dag og Bert van Marwijk, þjálfari Hollendinga, ákvað að henda honum inn í byrjunarliðið. Vinstri bakvarðarstaðan hefur verið í uppnámi í hollenska landsliðinu eftir að Giovanni van Bronckhorst hætti í landsliðinu eftir úrslitaleikinn á HM 2010.

Belginn Enzo Scifo átti gamla metið en hann var 18 ára og 115 daga gamall þegar hann lék með belgíska landsliðinu á móti Júgóslavíu á EM 1984.

Jetro Willems leikur með PSV Eindhoven í hollensku deildinni og lék sinn fyrsta A-landsleik á móti Búlgaríu fyrir tveimur vikum síðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×