Enski boltinn

Chelsea kaupir þrjá bræður frá Luton

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Graham og Ray Wilkins í búningi Chelsea á 8. áratugnum.
Graham og Ray Wilkins í búningi Chelsea á 8. áratugnum. Nordic Photos / Getty Images
Chelsea hefur gengið frá kaupum á tvíburabræðrunum tólf ára Rio og Cole auk þrettán ára bróður þeirra Jay DaSilva frá Luton Town. Fari svo að leikmennirnir spili fyrir Chelsea nær kaupverðið um milljón pundum eða sem nemur um 192 milljónum íslenskra króna.

„Ég vil helst ekki tala um drengina sem eina heild því þeir hafa allir einstaka hæfileika en þetta er vissulega söguleg félagsskipti að þrír bræður séu keyptir saman," sagði Gregg Broughton yfirþjálfari yngri flokka hjá Luton.

„Jay hefur mikla hæfileika, þekkir leikinn inn og út og er ekki síður klár og hann er hæfileikaríkur," sagði Broughton um eldri bróðurinn.

„Cole er líkamlega sterkur og líður vel með boltann á meðan Rio getur skapað hluti upp úr engu og hæfileiki hans til að framkvæma hluti á litlu svæði hafa alltaf vakið athygli," sagði Broughton um tvíburabræðurna.

Bræðurnir höfðu allir verið á mála hjá Luton frá sjö ára aldri. Eftir að Luton, sem spilar í 5. efstu deild Englands, tókst ekki að komast upp um deild á síðasta tímabili báðu bræðurnir um að fá að leita sér að nýju félagi.

Fróðlegt verður að sjá hvort bræðurnir komist á endanum í aðallið Chelsea. Þeir yrðu ekki fyrstu bræðurnir sem spiluðu fyrir Lundúnarliðið. Ray og Graham Wilkins spiluðu fyrir félagið á 8. áratugnum og það gerðu Ron og Allan Harris einnig á þeim sjöunda.

Ensku bræðurnir Joe og Sam Tillen sem spilað hafa undanfarin ár á Íslandi voru einnig á mála hjá Chelsea á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×