Enski boltinn

Cisse búinn að semja við QPR til 2014 | Zamora á leiðinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Djibril Cisse í leik með Lazio í haust.
Djibril Cisse í leik með Lazio í haust. Nordic Photos / Getty Images
Sóknarmaðurinn Djibril Cisse er genginn til liðs við QPR og mun því veita Heiðari Helgusyni meiri samkeppni um stöðu í byrjunarliði félagsins.

QPR keypti Cisse frá ítalska félaginu Lazio þar sem hann var í aðeins nokkra mánuði. Hann hefur áður leikið með Liverpool, frönsku félögun Auxerre og Marseille sem og Panathinaikos í Grikklandi.

Cisse er 30 ára gamall og er fjórði leikmaðurinn sem kemur til QPR eftir að Mark Hughes tók við. Hinir eru Taye Taiwoo, Nedum Onuoha og Samba Diakite. Þá er talið stutt í að enski framherjinn Bobby Zamora muni einnig semja við QPR þar er aðeins læknisskoðunin eftir.

„Ég hef mikið álit á Djibril," sagði Hughes í viðtali á heimasíðu QPR. „Ég hef fylgst með honum í nokkur ár og hef alltaf verið hrifinn af því hvað hann hefur fram að færa á knattspyrnuvellinum."

Sjálfur sagði Cisse að hann hafi heillast af þeim metnaði sem ríkir hjá QPR. „Stjórinn talaði mjög vel um félagið og hvað hann ætlar sér að gera hér á næstu árum. Hann vildi fá mig þegar hann var hjá Manchester City og nú er ég kominn til hans hjá QPR."

„Hann vill ná árangri og það er það eina sem ég þurfti að heyra frá honum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×