Fótbolti

Dómari leiks Englands og Úkraínu sendur heim

Kassai og félagar að leik loknum í gær
Kassai og félagar að leik loknum í gær NordicPhotos/Getty
Pierluigi Collina, yfirmaður dómaramála hjá Knattspyrnusambandi Evrópu, tilkynnti í dag að Ungverjinn, Viktor Kassai og aðstoðarmenn hans myndu ekki koma meira við sögu á Evrópumótinu í fótbolta sem nú stendur yfir í Póllandi og Úkraínu.

Kassai og félagar gerðu sig seka um mistök í leik Englands og Úkraínu í gær, mistök sem nú reynast þeim dýrkeypt. Dómurum leiksins yfirsást þegar Marko Devic, framherja Úkraínu tókst að koma boltanum yfir marklínu Englendinga, rétt um hálftíma fyrir leikslok. Sjónvarpsupptökur sýndu, svo ekki var um villst að knötturinn fór allur yfir línuna áður en John Terry náði til hans.

Englendingar unnu leikinn, 1-0 en Úkraína þurfti á þremur stigum að halda til að komast áfram í næstu umferð.

"Við gerðum mistök", sagði Collina. "Ég vildi að við hefðum ekki gert þessi mistök en staðreyndin er hinsvegar önnur. Mannleg mistök eru óhjákvæmileg og dómarar eru jú, mannlegir."

Sepp Blatter, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, ítrekaði í gær vilja sinn til að innleiða marklínutækni í knattspyrnuleikjum en hann hefur lengi verið talsmaður þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×