Fótbolti

Umeå batt enda á sigurgöngu Kristianstad

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Sif Atladóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sif Atladóttir í leik með íslenska landsliðinu. MYND/VILHELM
Fimm leikja sigurgöngu lærisveina Elísabetar Gunnarsdóttur hjá Kristianstad lauk í dag með 1-0 tapi gegn Umeå á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Sif Atladóttir og Katrín Ómarsdóttir voru sem fyrr í byrjunarliði Kristianstad.

Það var varamaðurinn Linda Molin sem skoraði sigurmarkið á 67. mínútu, aðeins þremur mínútum eftir að hún kom inná sem varamaður.

Katrín var tekin af leikvelli á 72. mínútu en Sif lék allan leikinn. Guðný Björk Óðinsdóttir er sem fyrr meidd og lék því ekki með Kristianstad frekar en í öðrum leikjum tímabilsins. Hún sleit krossband og liðband í hné á undirbúningstímabilinu.

Kristianstad hafði unnið fimm leiki í röð eftir að hafa byrjað tímabilið illa og aðeins náð í eitt stig í þremur fyrstu leikjunum. Liðið er í fimmta sæti deildarinnar með 13 stig, fimm stigum á eftir toppliðunum Tyresö og Vittsjö.

Umeå fór með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar með 11 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×