Fótbolti

Schweinsteiger heill og fer á EM

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Sjúkraþjálfarinn Darcey Norman að koma Schweinsteiger í stand fyrir EM.
Sjúkraþjálfarinn Darcey Norman að koma Schweinsteiger í stand fyrir EM. MYND/NORDIC PHOTOS GETTY
Þýski miðjumaðurinn Bastian Schweinsteiger mun fljúga með þýska landsliðinu til Póllands á morgun og leika með liðinu á Evrópumeistaramótinu í Póllandi og Úkraínu sem hefst á föstudaginn. Schweinsteiger missti af síðasta æfingaleik þýska liðsins fyrir EM en læknir liðsins segir hann leikhæfan.

Schweinsteiger missti af leiknum gegn Ísrael á fimmtudag og óttuðust Þjóðverjar og að hann yrði ekki heill í tæka tíð fyrir Evrópumeistaramótið en dr. Hans-Wilhelm Müller-Wohlfahrt segir hann klárann í slaginn.

"Bastian á ekki við nein vandamál að stríða lengur. Hann finnur hvergi til," sagði dr. Müller-Wohlfahrt.

"Við munum halda áfram að meðhöndla hann en hann mun æfa með liðinu á morgun. Hann er auðvitað ekki í sama formi og aðrir í hópnum en hann verður klár í slaginn gegn Portúgal." Þýskaland mætir Portúgal í fyrsta leik sínum á EM 9. júní.

"Það er engin ástæða til annars en að hlakka til EM. Við erum tilbúnir, við höfum æft vel og ánægðir með hvernig þetta hefur þróast," sagði Joachim Löw þjálfari Þýskalands um undirbúning þýska liðsins.

"Við þurfum að vera vel vakandi næstu vikur og þurfum að leggja mikla vinnu á okkur" sagði Löw að auki en Þýskalandi leikur í Úkraínu og er með Portúgal, Danmörku og Hollandi í riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×