Fótbolti

Tíu landsliðsmenn Úkraínu glíma við magapest

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heimamenn vonast til þess að Tymoshchuk verði klár í slaginn gegn Svíum enda lykilmaður hjá Úkraínu.
Heimamenn vonast til þess að Tymoshchuk verði klár í slaginn gegn Svíum enda lykilmaður hjá Úkraínu. Nordicphotos/Getty
Karlalandslið Úkraínu í knattspyrnu glímir við mikil veikindi í herbúðum sínum. Tíu leikmenn liðsins eiga við magapest að stríða en fyrsti leikur liðsins er gegn Svíum á mánudag.

Að sögn Oleg Blokhin, landsliðsþjálfara Úkraínu, fær miðjumaðurinn Anatoly Tymoshchuk vökva í æð sem stendur auk þess sem framherjinn Andriy Voronin sé sérstaklega slappur.

„Ástand Tymoshchuk er ennþá slæmt en hann fær vökva í æð. Ég er ekki að grínast. Við þurfum að bíða eftir niðurstöðu lækna en ástandið er langt í frá að vera fyndið," sagði Blokhin við blaðamenn að loknu 2-0 tapi gegn Tyrklandi í Þýskalandi í gærkvöldi.

Úkraína tapaði öðrum leik sínum í röð en liðið lá einnig gegn Austurríki 3-2 á föstudaginn. Að sögn Blohkin voru varnarmaðurinn Bohdan Butko og Denys Garmash einnig slappir en treystu sér þó til þess að spila.

„Hefðu Butko og Garmash ekki treyst sér í leikinn hefði ég blásið hann af vegna manneklu," sagði Blokhin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×