Fótbolti

Jürgen Klopp þjálfari Dortmund orðaður við Chelsea

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Jürgen Klopp, þjálfari þýska knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund.
Jürgen Klopp, þjálfari þýska knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund. Getty Images / Nordic Photos
Jürgen Klopp, þjálfari þýska knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund, er í dag nefndur til sögunnar sem einn af þeim sem koma til greina sem næsti knattspyrnustjóri enska stórliðsins Chelsea. Hinn 44 ára gamli Þjóðverji er samkvæmt heimildum Sportsmail ofarlega á óskalistanum hjá Roman Abramovich eiganda Chelsea.

Klopp er örugglega ekki efstur á þessum lista en Abramovich er sagður vilja fá Pep Guardiola eða Jose Mourinho til þess að taka liðið að sér. Guardiola er þjálfari Evrópu og Spánarmeistaraliðs Barcelona, og Mourinho, sem var á sínum tíma knattspyrnustjóri Chelsea, er á góðri leið með að gera Real Madrid að meisturum á þessari leiktíð.

Dortmund varð þýskur meistari á síðustu leiktíð undir stjórn Klopp. Það var í fyrsta sinn frá árinu 2002 sem Dortmund landaði titlinum. Klopp hefur byggt upp mjög skemmtilegt lið sem er að mestu skipað ungum leikmönnum sem hafa ekki kostað mikið. Þar má nefna Mario Götze, Mats Hummels og Sven Bender.

Klopp er einnig sagður vera ofarlega á óskalistanum hjá Bayern München, enda er starfsöryggið ekki mikið hjá Jupp Heynckes. Klopp skrifaði nýlega undir samning við Dortmund til ársins 2016.

Roberto Di Matteo tók við knattspyrnustjórastöðunni hjá Chelsea tímabundið eftir að Andre Villas-Boas var rekinn frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×