Enski boltinn

Podolski stóðst læknisskoðun hjá Arsenal - kostar 10,9 milljónir punda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lukas Podolski.
Lukas Podolski. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
James Olley , blaðamaður London Evening Standard, hefur heimildir fyrir því að þýski landsliðsmaðurinn Lukas Podolski sé búinn að ganga frá fjögurra ára samningi við Arsenal og verði tilkynntur sem nýr leikmaður liðsins í byrjun næstu viku. Olley setti þetta fram á twitter-síðu sinni í dag.

Podolski hefur samkvæmt sömu heimildum staðist læknisskoðun hjá Arsenal og mun kosta félagið 10,9 milljónir punda eða tæplega 2,2 milljarða íslenskra króna. Arsenal kaupir leikmanninn frá FC Köln þar sem Podolski hefur spilað stærsta hluta síns ferils.

Lukas Podolski er 26 ára framherji sem hefur verið fastamaður í þýska landsliðinu undanfarin ár. Hann hefur skorað 43 mörk í 95 landsleikjum og verður í aðalhlutverki með liðinu á EM í sumar.

Podolski er með 16 mörk og 5 stoðsendingar í 21 leik með FC Köln í þýsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð en í fyrra var hann með 13 mörk og 8 stoðsendingar í 32 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×