Enski boltinn

Petr Cech: Tottenham-leikurinn á morgun er lykilleikur fyrir okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Petr Cech.
Petr Cech. Mynd/Nordic Photos/Getty
Petr Cech, markvörður Chelsea, hefur tjáð sig um mikilvægi leiks helgarinnar en Chelsea

tekur á móti Tottenham á Stamford Bridge í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar á morgun. Chelsea er fyrir leikinn fimm stigum á eftir Tottenham sem situr í fjórða og síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í Meistaradeildinni.

„Eins og deildin hefur þróast að undanförnu þá er þetta algjör lykilleikur fyrir okkur. Þetta er bara leikur ársins fyrir okkur eins og staðan er núna. Við verðum að vinna til að nálgast Tottenham og eiga um möguleika á því að ná þeim seinna," sagði Petr Cech í viðtali á heimasíðu Chelsea.

„Ég held að við getum sett mikla pressu á þá ef við vinnum þennan leik. Kapphlaupið um Meistaradeildarsætin liti hinsvegar ekki vel út fyrir okkur ef við töpuðum þessum leik," sagði Cech.

„Ég var mjög vonsvikinn með að tapa á móti Manchester City og það var mikil synd að við skyldum ekki ná í það minnsta einu stigi. Það sem var enn meira svekkjandi við þann leik var að við komumst yfir og leikmenn City voru orðnir stressaðir. Svo kom vítið og allt breyttist við það mark. Þeir settu pressu á okkur í lokin og tókst að skora sigurmarkið," sagði Cech um leikinn á móti Manchester City í vikunni þar sem Chelsea-liðið tapaði 2-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×