Enski boltinn

Hjartastopp Muamba minnti Roy Hodgson á atvikið með Solbakken

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stale Solbakken á hliðarlínunni með 1. FC Köln.
Stale Solbakken á hliðarlínunni með 1. FC Köln. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Roy Hodgson, stjóri West Bromwich Albion, sagði frá því á blaðamannafundi í dag að atvikið með Bolton-manninn Fabrice Muamba á laugardaginn var hafi rifjað upp slæmar minningar frá því þegar hann var þjálfari FC Kaupmannahafnarliðsins og Stale Solbakken hneig niður á æfingu.

Stale Solbakken, þá 33 ára gamall, fékk hjartaáfall á æfingu FCK 13. mars 2001. Frank Odgaard, læknir danska liðsins, fann engan púls og tók eftir að hjartað hans var hætt að slá. Hann hóf strax lífgunartilraunir en líkt og með Muamba, á White Hart Lane á laugardaginn, þá var Solbakken í raun látinn. Það liðu sjö mínútur þar til að það tókst að koma hjarta hans í gang í sjúkrabílnum.

Solbakken lifði þetta af en varð að leggja fótboltaskóna á hilluna. Hann hefur síðan orðið farsæll þjálfari og stýrir núna þýska úrvalsdeildarliðinu 1. FC Köln. FCK varð fimm sinnum danskur meistari undir hans stjórn á árunum 2006 til 2011.

„Ég er ánægður með að geta sagt frá því að Stale náði sér hundrað prósent og hefur síðan orðið mjög sigursæll þjálfari. Ég vona það að við getum seinna sagt sömu sögu af Fabrice," sagði Roy Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×