Innlent

Síminn varla stoppað

Þrjátíu og sex konur hafa ráðið sér lögmann og hyggjast fara í skaðabótamál við Jens Kjartansson lýtalækni vegna gallaðra sílíkonpúða. Púðar frá PIP voru teknir af bandaríkjamarkaði fyrir ellefu árum.

Síminn hefur bókstaflega ekki stoppað síðustu daga hjá lögmanni kvennanna. Hún gagnrýnir skort heilbrigðisyfirvalda á eftirliti.

„Það virðist bara lítið eftirlit vera með svona aðgerðum almennt á íslandi, ekki eingöngu varðandi gæði sílíkonpúða heldur hversu algengt er að konur þurfi að fara í lagfæringu hjá hverjum lækni og þar fram eftir götunum. Manni virðist sem þetta sé í rauninni þannig að lýtalæknar sem starfa á einkastofum, þeir séu þeir einu sem haldi utan um sínar upplýsingar," segir Saga Ýrr Jónsdóttir, héraðsdómslögmaður hjá Vox.

Landlæknir hefur gefið út að hann hafi engar upplýsingar um fjölda þessara aðgerða.

Þannig að þetta er í raun starfsemi án eftirlits?

„Já, það virðist vera þannig, allavega mjög takmarkað eftirlit. Þetta er starfsemi sem ætti að vera undir mjög miklu eftirliti, þarna eru framkvæmdar aðgerðir á líkama fólks."

Saga segir ábyrgð Jens vera öllu meiri en hann hefur sjálfur viljað meina í viðtölum við fjölmiðla.

„Já, hann er svokallaður dreifingaraðili púðanna á Íslandi og þar af leiðandi fellur hann undir skaðsemis, og krafan sem er gerð er að ef varan er haldin ágalla þá er ekki eins öruggt að telja hafi mátt þá er dreifingaraðilinn bótaábyrgur."

Jens byrjaði að nota púða frá PIP fyrir um tveimur áratugum.

Árið 2000 voru púðar frá fyrirtækninu hins vegar teknir af bandaríkjamarkaði eftir að Matvæla- og lyfjaeftirlitið þar í landi gerði alvarlegar athugasemdir vegna sílíkonpúða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×