Innlent

Lyf ræktað í gulrótum er komið í sölu

Nýja lyfið við Gauchers-sjúkdómnum er framleitt í gulrótum og hefur í tilraunum reynst jafn vel og eldri lyf.
Nýja lyfið við Gauchers-sjúkdómnum er framleitt í gulrótum og hefur í tilraunum reynst jafn vel og eldri lyf.
Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt markaðssetningu á fyrsta lyfinu sem búið er til í erfðabreyttum plöntum með sameindaræktun. Íslenska líftæknifyrirtækið ORF Líftækni notar sambærilega tækni við framleiðslu próteina í byggi.

Lyfið sem um ræðir heitir Elelyso og er framleitt af lyfjarisanum Pfizer, undir leyfi frá ísraelska líftæknifyrirtækinu Protalix Biotherapeutics, sem tókst að framleiða ensím í frumum gulróta. Fyrirtækið er fyrst í heiminum til að koma á markað lyfi sem framleitt er í erfðabreyttum plöntum.

Fyrir heilbrigðisvísindin er um mikil tíðindi að ræða. Með því að nýta erfðatækni í plöntum tókst Ísraelunum að leysa tæknilegt vandamál sem fylgir framleiðslu á þessu lyfi og geta nú boðið lyf við hinum alvarlega Gaucher-sjúkdómi á mun hagstæðara verði en áður var hægt.

Lyfið Elelyso er þó aðeins byrjunin á framleiðslu öflugra líftæknilyfja með nýtingu þessarar tækni því mörg önnur lyf eru í þróun sem byggja á nýtingu erfðabreyttra plantna.

ORF Líftækni, sem er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í Evrópu, var fyrsta fyrirtækið í heiminum til að koma vöru á almennan neytendamarkað sem byggir á þessari tækni, en nokkuð er um liðið síðan EGF-húðdroparnir voru markaðssettir, en þeir eru framleiddir hjá dótturfyrirtæki ORF, Sif Cosmetics.

Eiríkur Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ORF, segir að til lengri tíma litið horfi fyrirtækið til þeirra möguleika sem felast í því að nota erfðabreyttar plöntur í lyfjaþróun. „Ástæðan er að tæknin býður upp á hreinni og ódýrari afurðir en núverandi kerfi sem byggja flest á framleiðslu í erfðabreyttum bakteríum eða í spendýrafrumum. Þróun nýrra lyfja er hins vegar ákaflega tímafrekt og áhættusamt ferli sem við hyggjumst ekki fara út í upp á eigin spýtur.“

ORF Líftækni mun á næstu árum beina kröftunum að framleiðslu frumuvaka fyrir snyrtivörur og fyrir læknisfræðilegar rannsóknir, svo sem stofnfrumurannsóknir, en um ört stækkandi markað er að ræða í báðum tilvikum.svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×