Erlent

Lykilorð franska seðlabankans var 123456

BBI skrifar
Mynd/AFP
Ætla mætti að Seðlabanka Frakklands væri ekki sérlega annt um öryggi sitt því á dögunum kom í ljós að lykilorðið að vefsvæði bankans var það einfaldasta sem um getur.

Einstaklingur braust fyrir tilviljun inn á vef bankans árið 2008. Hann var í kjölfarið ákærður fyrir tölvuglæpi en nýverið var hann sýknaður af ákærunum, enda ekki brotavilji á bak við gjörðir hans.

Einstaklingurinn ætlaði hann að lækka kostnað sinn við skype-símtöl. Einhverra hluta vegna tengdist hann við tölvukerfi Seðlabankans og var beðinn að slá inn lykilorð. Hann sló inn rununa 123456 af rælni og var forviða þegar hann komst inn á kerfið. Starfsmenn seðlabankans sáu um leið að óboðinn gestur var inni á kerfinu og var því lokað í kjölfarið í tvo sólarhringa.

Seðlabankinn komst að því hver „tölvuþrjóturinn var" og málið rataði í dómssal, en þar var einstaklingurinn sem fyrr segir hreinsaður af öllum ákærum.

Bankinn hefur í kjölfarið breytt lykilorði sínu enda er lykilorðið 123456 í raun ávísun á vandræði í hinum tæknivædda heimi nútímans - ekki síst ef maður er Seðlabanki Frakklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×