Innlent

Aðgæslu er þörf við sendingu á lykilorðum

Orkuveitan sendir viðskiptavinum notendanöfn og lykilorð á persónulegt svæði þeirra á vef fyrirtækisins í pósti um lestur af orkumælum.
Orkuveitan sendir viðskiptavinum notendanöfn og lykilorð á persónulegt svæði þeirra á vef fyrirtækisins í pósti um lestur af orkumælum. Fréttablaðið/Vilhelm
Gæta verður að öryggi persónuupplýsinga þegar viðskiptavinum eru send notendanöfn og lykilorð í pósti segir lögfræðingur hjá Persónuvernd. Orkuveita Reykjavíkur (OR) sendir notendum sínum bréf þar sem finna má upplýsingar til að komast á persónulegt svæði viðkomandi á vef fyrirtækisins.

„Mér finnst undarlegt að senda svona í bréfi, nema tilgangurinn sé sá að senda notendanafn og lykilorð sem viðskiptavinurinn hefur beðið um,“ segir Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd.

Í bréfum sem viðskiptavinum OR eru send til að minna þá á árlegan lestur af orkumælum má finna bæði notendanöfn þeirra og lykilorð á vef OR. Þar er hægt að sjá upplýsingar um skuldastöðu, orkunotkun og aðrar persónulegar upplýsingar.

Spurður hvort heppilegra hefði verið að hafa annan hátt á sendingunni segist Þórður ekki geta tjáð sig um þetta tiltekna mál. „En það á að gæta allra eðlilegra ráðstafana til að óviðkomandi komist ekki yfir notendanöfn og lykilorð, meðal annars við sendingu og aðra meðhöndlun þessara upplýsinga.“

„Þetta er einkabréf, og það er hreint og klárt lögbrot ef menn eru að æða í póst annarra,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR. Hann segir engar kvartanir hafa borist vegna málsins, en það verði nú tekið til umræðu innan fyrirtækisins. Fram að þessu hafi þessi leið verið talin traust. - bj

Mynd/OR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×