Fótbolti

FIFA ætlar að borga allar tryggingar fyrir leikmenn í landsleikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter með Pele og Ronaldo.
Sepp Blatter með Pele og Ronaldo. Mynd/AP
Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur lofað því að Alþjóðaknattspyrnusambandið muni í framtíðinni borga allar tryggingar fyrir leikmenn þegar þeir spila með landsliðinum sínum. Þetta er útspil hjá FIFA í deilunni við evrópsku stórliðin sem hafa verið í herferð gegn of mörgum landsleikjum.

Blatter tilkynnti þetta í dag á fundi með fulltrúum aðildarlanda UEFA og það eina sem stendur í vegi fyrir þessu núna er að sambandsaðilar FIFA samþykki þetta á fundi sínum í maí.

„FIFA mun sjá um allar tryggingar fyrir leikmenn, liðin og knattspyrnusamböndin í öllum landsleikjum á FIFA-landsleikjadögum. Við verðum að taka mið af því hvað sé best fyrir leikmenn," sagði Sepp Blatter. FIFA fylgir þar með í fótspor UEFA sem ætlar að borga tryggingar fyrir alla leikmenn á Evrópumótinu í Póllandi og Úkraínu í sumar.

Samtök evrópsku félaganna hófu herferðina gegn of mörgum landsleikjum eftir að Hollendingurinn Arjen Robben missti af sex mánuðum með Bayern Munchen á síðustu leiktíð. Allt bendir til þess að hann hafi verið látinn spila meiddur með hollenska landsliðinu á HM 2010 og Bayern þurfti síðan að bera allan kostnað af meiðslum leikmannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×