Enski boltinn

Welbeck tryggði United stigin þrjú gegn Arsenal

Stefán Árni Pálsson skrifar
Manchester United vann gríðarlega mikilvægan sigur, 2-1, gegn Arsenal á Emirates-vellinum í dag. Sigurmark United kom tíu mínútum fyrir leikslok og því er staðan á toppi deildarinnar eins eftir leiki dagsins. Danny Welbeck var hetja Manchester og skoraði sigurmarkið eftir frábæran undirbúning hjá Antonio Valencia.

Leikurinn var nokkuð rólegur til að byrja með en gestirnir frá Manchester voru samt örlítið betri og virkuðu meira sannfærandi. Phil Jones, leikmaður Manchester United, meiddist nokkuð illa eftir korters leik þegar hann misteig sig. Leikmaðurinn var borinn útaf og kom ekki meira við sögu í dag. Gestirnir fóru eftir það almennilega í gang og stjórnuðu gjörsamlega gangi leiksins.

Liðið átti í erfileikum með að skapa sér hættulega færi en það gekk loksins í blálokin á fyrri hálfleiknum þegar Antonio Valencia  skoraði með frábærum skalla eftir magnaða fyrirgjöf frá Ryan Giggs. Staðan var því 0-1 í hálfleik og margt varð að breytast í leik Arsenal.

Arsenal hóf síðari hálfleikinn virkilega vel og það markið lá heldur betur í loftinu í upphafi hálfleiksins. Manchester United voru alltaf sterkir og fengu einni sín færi. Þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka var staðan enn 1-0. Þá var komið að Robin van Persie að mæta til leiks. Hann fékk frábæra stungusendingu frá Alex Oxlade-Chamberlain og afgreiddi boltann í fjærhornið. Framundan voru spennandi mínútur.

Þegar tæplega tíu mínútur voru eftir af leiknum komust gestirnir yfir á ný. Antonio Valencie átti frábæran sprett upp hægri kantinn, gaf fyrir inn í teig á Danny Welbeck sem þrumaði knettinum í netið. Gestirnir frá Manchester héldu út leikinn og fóru með öll þrjú stigin heim. Manchester er því enn þremur stigum á eftir Manchester City með 51 stig en Arsenal er í fimmta sæti með 36 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×