Erlent

Ormur skírður í höfuðið á Yoda úr Star Wars myndunum

Áður óþekkt tegund af djúpsjávarormum sem fannst við Norður Atlantshafshrygginn suður af Íslandi hefur verið skírð í höfuðið á Jedi riddaranum Yoda í Star Wars myndunum.

Það voru vísindamenn frá háskólanum í Aberdeen í Skotlandi ásamt fleirum sem fundu hina nýju tegund djúpsjávarorma á yfir tveggja kílómeta dýpi við hlið Norður Atlantshafshryggjarins um miðja vegu milli Íslands og Azoreyja. Þar hafa þeir stundað rannsóknir á sjávarbotninum með aðstoð djúpsjávarkafbáts undanfarnar vikur.

Ormarnir sem hér um ræðir eru purpurarauðir á litinn en það sem veldur því að ákveðið var að skíra tegundina Yoda purpurata er ekki litur þeirra heldur sú staðreynd að þessir ormar skarta myndarlegum útistandandi vörum eða munni sem er sláandi líkur eyrum Jedi riddarans í Star Wars myndunum.

Í umfjöllun í blaðinu The Guardian um málið segir að þar með bætist Yoda í hóp þekktra persóna í samtímanum sem fengið hafa dýrategund skríða í höfuð sér. Má þar nefna sníkjudýr í fiski sem skírt var Bob Marley, hrossafluga sem kölluð er Beyoncé og slímbjöllu þrenning sem hlaut nafnið George Bush, Dick Chaney og Donald Rumsfeld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×