Enski boltinn

Sir Alex: Ég bjóst ekki við þessu hlaupi frá Scholes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danny Welbeck fagnar hér Paul Scholes eftir markið.
Danny Welbeck fagnar hér Paul Scholes eftir markið. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, var ánægður eftir 3-0 sigur á Bolton í ensku úrvalsdeildinni í dag ekki síst með Paul Scholes sem skoraði fyrsta mark leiksins í sínum fyrsta leik í byrjunarliðinu síðan að hann tók skóna af hillunni. Scholes braut ísinn í uppbótartíma fyrri hálfleiks og United náði nágrönnum sínum í City að stigum á toppnum með þessum sigri.

„Hann er frábær leikmaður. Einhverjir blaðamenn hafa verið neikvæðir í skrifum sínum um endurkomu hans en ætli það sé ekki bara af því að þetta er Manchester United," sagði Sir Alex Ferguson.

„Hann er ennþá stórkostlegur leikmaður sem hefur æft vel undanfarnar vikur til þess að koma sér í það form sem hann var í," sagði Sir Alex.

„Hann sýndi okkur í dag það sem hann hefur verið að gera undanfarin tíu ár en það kom mér samt nokkuð á óvart að sjá hann birtast þarna á fjærstönginni þegar hann skoraði markið sitt," sagði Ferguson og bætti við:

„Ég bjóst nú ekki við að sjá hann taka svona hlaup á þessum aldri og nýkominn til baka. Við báðum hann um að stýra miðjunni en hann hefur markanef og þetta gæti verið mjög mikilvægt mark fyrir okkur," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×