Innlent

Ólafur Ragnar bauð Alberti borgarstjórastólinn

Styrmir Gunnarsson lyfti hulunni af ýmsu í sögu Sjálfstæðisflokksins í nýrri bók.
Styrmir Gunnarsson lyfti hulunni af ýmsu í sögu Sjálfstæðisflokksins í nýrri bók.
Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1982 bauð Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi þingflokksformaður Alþýðubandalagsins, Alberti Guðmundssyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, embætti borgarstjóra að loknum kosningum gegn því að Albert færi fram með sérlista. Þetta kemur fram í nýrri bók Styrmis Gunnarssonar, Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör.

Styrmir segir að Ólafur Ragnar hafi jafnframt gefið Alberti til kynna að hann ætti kost á borgarstjóraembættinu þó að hann færi á lista Sjálfstæðismanna ef hann svo klyfi sig frá sjálfstæðismönnum að kosningum loknum.

Að því er Styrmir hermir staðfesti Svavar Gestsson, þáverandi formaður Alþýðubandalagsins, við Sjálfstæðismenn á þeim tíma að Ólafur Ragnar væri að „rækta“ Albert og hefði haft heimild til þess að bjóða honum borgarstjóraembættið ef hann færi fram með sérframboð. Ef Ólafur hefði hins vegar boðið honum borgarstjóraembætti þótt hann færi fram á lista Sjálfstæðismanna, hefði það verið á ábyrgð Ólafs sjálfs.

Ekkert varð þó af þessu. Sjálfstæðisflokkurinn fékk meirihluta í kosningunum, Davíð Oddsson varð borgarstjóri og Albert forseti borgarstjórnar.

Að mati Styrmis sýndu þessar þreifingar fram á hvers konar áhrif stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsen 1980 hafði á stjórnmálin, en Gunnar, ásamt nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokks, gekk til liðs við Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkinn.

Þetta hafi orðið til þess að hvetja andstæðinga flokksins „til þess að láta reyna á frekari klofning innan flokksins með því að veifa metorðum framan í menn“, segir Styrmir.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×