Lífið

Jens Ólafsson: Brain Police snýr aftur og spilar í Frakklandi Fengu ógeð á hver öðrum

Frá vinstri: Hörður Ingi Stefánsson, Jens Ólafsson, Jón Björn Ríkharðsson og Gunnlaugur Lárusson í æfingahúsnæði sínu í vikunni .
Frá vinstri: Hörður Ingi Stefánsson, Jens Ólafsson, Jón Björn Ríkharðsson og Gunnlaugur Lárusson í æfingahúsnæði sínu í vikunni . fréttablaðið/vilhelm
Rokkararnir í Brain Police eru komnir á fulla ferð á nýjan leik og spila á frönsku tónlistarhátíðinni Hellfest um miðjan júní. Þekktustu hljómsveitirnar á þessari vinsælu rokkhátíð í ár eru Guns N"Roses og Black Sabbath.

„Það var bókari í Þýskalandi sem hafði samband því hann fann fyrir svo miklum hita fyrir okkur, sem kom okkur svolítið á óvart því það eru ein sex ár síðan við kláruðum síðustu plötu,“ segir söngvarinn Jens Ólafsson eða Jenni. „Það er fáránlegt að þetta Hellfest-dæmi skuli detta inn hjá bandi sem hefur ekki gefið út plötu í þetta langan tíma.“

Brain Police spilar á sviðinu The Valley laugardagskvöldið 16. júní. Önnur íslensk sveit, Sólstafir, stígur á svið á The Temple á sömu hátíð deginum áður. „Þetta verður geðveikt. Það verður ekkert smá skemmtilegt að fá að upplifa þetta.“ Brain Police hefur einnig verið bókuð á smærri tónlistarhátíð í Berlín í apríl sem nefnist Desert Fest.

Að sögn Jenna er hljómsveitin að æfa á fullu þessa dagana og stefnan hefur verið sett á nýja plötu í byrjun næsta árs. Þrátt fyrir að hafa legið meira og minna í dvala síðustu ár er hún enn með útgáfusamning við bandaríska fyrirtækið Small Stone. „Hann er enn þá í gildi. Hann er orðinn mjög spenntur að fá næstu plötu hjá okkur. Hann var gríðarlega ánægður með að sjá okkur fara af stað aftur,“ segir söngvarinn kraftmikli um eiganda útgáfunnar.

Jenni flutti til Danmerkur fyrir tveimur árum þar sem hann stundar nám í rafmagnstæknifræði. Hann býr því enn úti og þess vegna þurfa þeir félagar að haga seglum eftir vindi varðandi æfingar og annað slíkt. Inntur eftir því hvers vegna Brain Police hafi verið í svo löngu hléi segir hann að ósætti hafi komið upp í sveitinni. „Við fengum bara ógeð hver á öðrum. Þetta er eins og risastórt hjónaband að vera með þremur einstaklingum í hljómsveit. Það getur verið svolítið erfitt að púsla því saman, þannig að við vorum í raun og veru hættir. Þá ákvað ég að flytja út og það liðu ekki margir mánuðir þangað til hungrið var komið aftur í drengina.“

Allir upprunalegu meðlimir Brain Police eru núna í bandinu, þar á meðal gítarleikarinn Gunnlaugur Lárusson sem hætti á sínum tíma. Næstu tónleikar verða á Gauki á Stöng í kvöld og má búast við þéttu rokki og kófsveittri stemningu í salnum.freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.