Innlent

Viðvörun frá Veðurstofu Íslands

Hér fyrir neðan er viðvörun frá veðurstofu Íslands:

Viðvörun vegna norðanóveðurs og stórhríðar laugardaginn, 29. desember 2012.

Dagsetning: 28. desember 2012 kl. 11:30

Veðurstofan varar við óveðri á Vestfjörðum síðdegis og í nótt og á morgun norðan- og vestanlands. Ekkert ferðaveður verður á vestan- og norðanverðu landinu.

Spáin er eftirfarandi: NA 20-25 m/s og snjókoma á Vestfjörðum strax síðdegis í dag en N og NA 18-33 m/s (stormur og sums staðar fárviðri) um vestanvert landið í nótt og á morgun, hvassast á Vestfjörðum og sunnanverðu Snæfellsnesi. Mikið hægari vindur A- og SA-lands og á Suðurlandi.

Talsverð eða mikil snjókoma á N-verðu landinu en rigning eða slydda S- og A-lands. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu vestantil annað kvöld, en hvessir þá A-lands í um 15-20 m/s.

Snjóflóðahætta: Víða hefur snjóað í fjalllendi undanfarna daga og snjóflóðahætta getur skapast hratt þegar hvessir. Þeim tilmælum er beint til skíðafólks, vélsleðamanna og annara, sem eru á ferð, að halda sig frá snjóflóðabrekkum og vera ekki á ferð, þar sem snjóflóð geta fallið. Einnig er fólki bent á að stöðva ekki farartæki sín á vegarköflum, þar sem hætta gæti verið á snjóflóðum.

Sjávarflóðahætta: Stórstreymt er þessa dagana samfara óvenju lágum loftþrýstingi, mikilli veðurhæð, ölduhæð og áhlaðanda. Sjómönnum er beint huga vel að bátum og skipum í höfnum áveðurs.

Fólki er bent á að ganga frá lausum munum, að það verður ekkert ferðaveður um N- og V-vert landið og að fylgjast náið með upplýsingum um veður og færð.

Vakthafandi veðurfræðingar, Björn Sævar Einarsson, Elín Björk Jónasardóttir og Árni Sigurðsson.og vaktahafandi snjóflóðasérfræðingur, Sveinn Brynjólfsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×