Enski boltinn

Rodgers ætlar ekki að selja Luis Suarez

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Luis Suarez er ekki á förum frá Liverpool.
Luis Suarez er ekki á förum frá Liverpool. Nordic photos / Getty Images
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool, segir að Luis Suarez verði áfram hjá félaginu. Framherjinn frá Úrúgvæ hefur verið sterklega orðaður við Englandsmeistaralið Manchester City en leikmannamarkaðurinn opnar á ný í janúar.

Hinn 25 ára gamli Suarez hefur sýnt allar sínu bestu hliðar í leikjum Liverpool það sem af er tímabilinu. „Luis Suarez er ekki á förum og það mun ekki verða neitt „kaupstríð" í janúar," segir Rodgers en Suarez skrifaði undir nýjan samning við Liverpool s.l. sumar. Suarez hefur skorað 11 mörk í 16 leikjum og hann er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni með 8 mörk ásamt Robin van Persie hjá Man Utd.

„Ef við missum Luis þá erum við ekki með neinn framherja, og við höfum ekki efni á því að missa leikmenn. Hann er ekki leikmaður sem við viljum selja eða láta fara frá okkur. Við viljum frekar fá leikmenn til okkar. Luis er ánægður og hann er að skora mörk – allt gengur vel," sagði Rodgers.

Suarez var keyptur til Liverpool frá Ajax í Hollandi í janúar 2011 fyrir 4,6 milljarða kr. eða sem nemur tæplega 23 milljónum punda. Hann skoraði 17 mörk í 39 leikjum á fyrsta heila tímabili sínu með Liverpool. Alls hefur hann skorað 32 mörk í 68 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×