Enski boltinn

Sunderland vann góðan útisigur á Fulham

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sunderland vann flottan sigur.
Sunderland vann flottan sigur. Nordicphotos/Getty
Sunderland gerði góða ferð til Lundúna í dag þegar liðið vann 3-1 sigur á Fulham á Craven Cottage. Vendipunktur leiksins var þegar Brede Hangeland var vikið af velli eftir hálftímaleik.

Fyrri hálfleikur var markalaus og tíðindalítill ef frá er talið rauða spjald Hangeland. Norski miðvörðurinn fór með báða fætur á undan sér í tæklingu við Lee Cattermole og fékk reisupassann.

Heimamenn komust nálægt því að ná forystunni þegar John Arne Riise skaut í þverslána eftir fimm mínútna leik í síðari hálfleik. Gestirnir frá Sunderland brunuðu í skyndisókn. Adam Johnson sendi frábæra sendingu inn á Steven Fletcher sem kláraði færið vel.

Tíu leikmenn Fulham gáfust ekki upp. Damien Duff sendi boltann fyrir markið frá vinstri á Mladen Petric sem skoraði af stuttu færi. Gestirnir voru þó ekki lengi að ná forystunni að nýju.

Adam Johnson tók þá hornspyrnu frá vinstri beint á kollinn á Carlos Cuellar sem stangaði knöttinn í netið. Markið var sérstaklega sætt fyrir Spánverjann sem átti að miklu leyti sök á jöfnunarmarki Fulham.

Fimm mínútum síðar eða á 70. mínútu tryggði Stephane Sessegnon sigur gestanna með glæsilegu marki. Benínmaðurinn sendi þá boltann í fjærhornið fyrir utan teig.

Með sigrinum komst Sunderland upp að hlið Liverpool í 11. sæti deildarinnar með 15 stig. Fulham hefur 16 stig í 9. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×