Enski boltinn

QPR eitt án sigurs en Hughes neitar að hætta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mark Hughes á Loftus Road í gær.
Mark Hughes á Loftus Road í gær. Nordicphotos/AFP
Mark Hughes, knattspyrnustjóri QPR, segist ekki ætla að hætta sem knattspyrnustjóri félagsins. QPR er eina liðið í fjórum efstu deildunum á Englandi sem á enn eftir að landa sigri.

QPR beið lægri hlut gegn Southampton á heimavelli í gær 1-3. Um sannkallaðan botnslag var að ræða enda höfðu gestirnir aðeins unnið einn leik á tímabilinu.

„Ég flý ekki áskoranir og þetta er risastór áskorun," sagði Hughes á blaðamannafundi eftir leikinn í gær. „Áskorunin var stór þegar ég tók við liðinu og það voru ekki margir sem töldu rétt hjá mér að taka starfið að mér," bætti Hughes við.

Walesverjinn, sem áður stýrði Blackburn, Manchester City, Fulham og landsliðið Wales, tók við liði QPR í janúar af Neil Warnock. Liðið var í harðri botnbaráttu en hagstæð úrslit í lokaumferðinni tryggðu liðinu áframhaldandi veru meðal þeirra bestu.

„Ég á ekki orð. Ég hef sett hjarta mitt og sál í verkefnið ásamt öðrum hluthöfum og stutt eins vel við bakið á leikmönnum og þjálfurum og mögulegt er. Ég get aðeins beðið stuðningsmenn QPR afsökunar. Við höldum áfram að berjast," sagði Tony Fernandes eigandi félagsins á Twitter.

QPR situr eitt á botni deildarinnar með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×