Erlent

Segir litarhaft stjórna stuðningi Powells við Obama

Einn helsti talsmaður Mitt Romneys, forsetaefni Repúblikanaflokksins, ýjaði að því í gær að stuðningsyfirlýsing Colin Powell við Barack Obama væri byggð á kynþætti.

Powell, sem var utanríkisráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn George W. Bush, tilkynnti í vikunni að hann styddi Obama til endurkjörs í embætti forseta.

Það var síðan í gær sem John Sununu, fyrrverandi ríkisstjóri í New Hampshire og ötull stuðningsmaður Romneys, gaf til kynna að Powell hefði tekið mið af hörundslit Obama. Þetta sagði hann í spjallþætti Piers Morgan á fréttastöðinni CNN.

Morgan spurði Sununu hvort að tímabært væri fyrir Powell að segja skilið við Repúblikanaflokkinn vegna yfirlýsingarinnar. Sununu vildi lítið tjá sig um það og virtist frekar vera umhugað um kynþátt Powells.

Sununu hefur nú gefið út yfirlýsingu þar sem hann segir að stuðningur Powells við Obama hafi ekkert að gera með litarhaft. Powell sé skynsamur maður og ákvörðun hans sé vafalaust byggð á stefnumálum forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×