Erlent

Miðasala á afmælistónleika The Rolling Stones hefst á morgun

Mick Jagger, söngvari The Rolling Stones.
Mick Jagger, söngvari The Rolling Stones. mynd/AFP
Rokkhljómsveitin goðsagnakennda The Rolling Stones mun fagna hálfrar aldar starfsafmæli með tónleikum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Miðasalan hefst á morgun. Nær öruggt þykir að miðarnir muni rjúka út á stuttum tíma.

Hljómsveitin mun halda tvenna tónleika á O2 leikvanginum í Lundúnum, þann 26. og 27. nóvember næstkomandi. Því næst munu Jagger og félagar halda til New Jersey í Bandaríkjunum þar sem þeir munu stíga á svið í Prudential Center 15. og 16. desember.

Um tíma var óvíst hvort að The Rolling Stones myndi halda tónleika í tilefni af áfanganum. Eins og svo oft áður voru peningar helsta fyrirstaðan. Hljómsveitin hefur nú komist að samkomulagi við tónleikahaldara en fregnir herma að athafnamaðurinn Richard Branson hafi dælt 25 milljónum dollara í verkefnið, eða það sem nemur rúmlega þremur milljörðum íslenskra króna.

Miðarnir verða til sölu á vefsíðu Ticketmaster og er áhugasömum bent á fylgjast með síðunni í dag og á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×