Erlent

Leitarvél Google skilar óvæntum niðurstöðum um Romney

Mitt Romney, forsetaefni Repúblikana.
Mitt Romney, forsetaefni Repúblikana. mynd/AFP
Það má segja að Mitt Romney, forsetaefni Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, hafi staðið í ströngu síðustu daga. Ekki nóg með frambjóðandinn þurfi að kljást við Bandaríkjaforseta um atkvæði heldur þarf hann einnig að takast á við leitarvél Google.

Sé frasinn „completely wrong" sleginn inn í leitarvélina birtast nefnilega nær eingöngu myndir af Romney.

Talsmaður Google sagði að fyrirtækið hefði enga skoðun á forsetakosningunum í nóvember. Aðeins væri um að ræða óviljandi niðurstöður sem greiningarformúla Google skilar.

Frasinn „completely wrong" er að öllum líkindum tengdur ummælum Romneys um 47 prósent bandarísku þjóðarinnar. Frambjóðandinn sagði að kjósendur Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, væru með tölu ónytjungar.

Seinna meir sagði Romney að ummæli sín hefðu verið algjörlega röng eða „completely wrong."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×