Erlent

Leikkonan sem lék Emmanuelle er látin

Hollenska leikkonan Sylvia Kristel er látin, sextug að aldri. Hún varð þekkt í kvikmyndasögunni fyrir hlutverk sitt sem Emmanuelle í samnefndum léttbláum kvikmyndum á áttunda áratug síðustu aldar.

Banamein Kristel var krabbamein en hún hafði glímt við þann sjúkdóm í áratug. Lífshlaup hennar var að mörgu leyti athyglisvert.

Kristel fæddist í borginni Utrecht í Hollandi og ólst þar upp á hóteli sem foreldrar hennar áttu. Foreldrarnir voru hinsvegar strangtrúaðir kalvínistar og þegar Kristel var unglingur flúði hún undan hinu trúaða uppeldi sínu til Amsterdam. Þar varð hún fyrirsæta og lék meðal annars í auglýsingum.

Kristel fékk hlutverið sem Emmanuelle fyrir tilviljun. Hún var á leið í myndatöku fyrir sápuauglýsingu þegar hún villtist inn í rangt herbergi þar sem verið var að prófa stúlkur í aðalhlutverk fyrstu myndarinnar um Emmanuelle. Í frétt um andlát hennar á vefsíðu BBC segir að hún hafi ekki átt í minnstu vandræðum með að telja leikstjóranum trú um að hún væri sú rétta.

Eftir Emmanuelle reyndi hún fyrir sér í öðrum kvikmyndum en með litlum árangri. Kristel átti að baki nokkur ástarsambönd og tvö misheppnuð hjónabönd. Hún bjó síðustu ár sín í Suður Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×