Erlent

Ikea fjarlægir konur úr kynningarbæklingi

Úr kynningarbæklingi Ikea í Sádí-Arabíu.
Úr kynningarbæklingi Ikea í Sádí-Arabíu.
IKEA sætir nú gagnrýni eftir að fyrirtækið eyddi öllum konum úr kynningabæklingi sínum í Sádí-Arabíu.Það var sænski fréttamiðillinn Metro sem greindi frá þessu í gær. Í umfjöllun blaðsins mátti sjá ljósmyndir úr bæklingi IKEA þar sem allar konur höfðu verið fjarlægðar með hjálp myndvinnsluforrita.

Málið hefur vakið hörð viðbrögð í Svíþjóð og hafa mannréttindasamtök og fleiri sakað húsgagnaframleiðandann um kynjamisrétti.

Aðspurð um skoðun sína á málinu vildi Eva Björling, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, ekki taka svo djúpt í árina að saka fyrirtækið um að virða mannréttindi kvenna að vettugi. Samt sem áður sagði Eva að ómögulegt væri að eyða konum úr samfélaginu með einu pennastriki.

IKEA hefur nú beðist afsökunar á málinu. Í yfirlýsingu frá IKEA kemur fram að ákvörðunin stangist á við stefnu fyrirtækisins í jafnréttismálum.

Afar sjaldgæft er að sjá konur í auglýsingum í Sádí-Arabíu. Í þau fáu skipti sem slíkt hefur komið fyrir eru konurnar iðulega í síðum kjólum með löngum ermum og með hálsklúta sem hylja hár þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×