Erlent

Bryti páfa í 18 mánaða fangelsi

Benedikt páfi sextándi ásamt Paolo Gabriele.
Benedikt páfi sextándi ásamt Paolo Gabriele. mynd/AP
Fyrrverandi bryti Benedikts páfa sextánda var í dag dæmdur í átján mánaða fangelsi. Hann var sakaður um að stolið trúnaðarskjölum frá skrifstofu páfa og lekið þeim til ítalskra fjölmiðla.

Málið komst upp þegar ítalski blaðamaðurinn Gianluigi Nuzzi gaf út bókina Hans Heilagleiki árið 2010. Nuzzi fór um víðan völl í ritinu. Þar á meðal svipti hann hulunni af spillingu, hneykslismálum og valdabaráttu innan kirkjunnar.

Málið þótti afar neyðarlegt fyrir Páfagarð en í kjölfar útgáfu bókarinnar hófst mikil leit að uppljósturnarmanninum.

Loks beindust allra augu að Paolo Gabriele sem þá hafði verið sérlegur aðstoðarmaður Benedikts páfa í sjö ár. Í kjölfarið var hann ákærður og dreginn fyrir dómstól í Páfagarði í síðustu viku. Gabriele gekkst ekki við brotunum en játaði engu síður að hafa stolið gögnunum.

Við meðferð málsins hafa ýmis gögn komið fram sem varpa ljósi á átök sem hafa átt sér stað í æðstu stigum kaþólsku kirkjunnar, en einnig þá lélegu öryggisgæslu sem virðist hafa verið í Páfagarði síðustu ár.

Gabriele sagði dómaranum að hann væri ekki þjófur. Hann hefði afritað gögnin til þess eins að hjálpa kirkjunni og að væntumþykja hefði stjórnað gjörðum sínum.

Gabriele var dæmdur í átján mánaða fangelsisvistar. Líklegt þykir þó að Páfi muni náða hann enda hefur Paolo beðist fyrirgefningar á gjörðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×