Erlent

Tugþúsundir Grikkja mótmæltu Merkel

HH skrifar
Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel kanslari Þýskalands talaði fyrir aðhaldsaðgerðum og hvatti Grikki til áframhaldandi evrusamstarfs á fundi með grískum ráðamönnum í Aþenu í dag. Tuttugu og fimm þúsund mótmæltu komu hennar til landsins.

Margir af helstu leiðtogum Evrópu hafa veigrað sér við að sækja Grikkland heim af ótta við óblíðar mótttökur líkt og þær sem Merkel fékk við komu sína til höfuðborgar landsins í dag. Yfir hundrað mótmælendur voru handteknir en blátt bann var lagt við fjöldasamkomum í miðborginni og var götum lokað til að koma í veg fyrir að mótmælendur kæmust nærri Merkel. Alls voru um sjö þúsund lögreglumenn á vakt.

Merkel hefur lagt áherslu á að Grikkir ráðist í niðurskurðaraðgerðir til að minnka gífurlegan halla á rekstri hins opinbera og því telur stór hluti landsmanna að heimsóknin eigi eftir að leiða af sér frekari niðurskurð og erfiðleika.

Merkel sagðist eindregið vera þeirrar skoðunar að Grikkir ættu að vera áfram í myntbandalagi Evrópu, að þeir hefðu gripið til nægilegra ráðstafana og aðgerðirnar væru komnar vel á veg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×