Erlent

Leigðar fartölvur geta tekið myndir af þér í stofunni

Sjö tölvur, sem viðskiptavinir leigðu af tölvuleigum, tóku myndir af þeim, þar á meðal pari í miðjum ástarlotum. Þetta kemur fram á vef BBC en um er að ræða fartölvur sem fólk leigir en í þeim er forrit sem kallast „PC Rental Agent" og er hugsað til þess að endurheimta tölvurnar greiði viðskiptavinur ekki af þeim eða neitar að skila gripnum.

Talið er að kerfið sé í 420 þúsund tölvum út um allan heim. Hluti af varnarviðbragði kerfisins er að þegar viðskiptavinur hefur ekki greitt fyrir tölvuna þá birtist gluggi á skjánum sem gefur sig út fyrir að vera skráningarsíða fyrir hugbúnaðinn sem viðkomandi er að nota. Þar er notandinn beðinn um símanúmer og vefpóst. Þá eru til dæmi um að kerfið komist yfir lykilorð notandans hjá samskiptasíðum svo sem Facebook.

Flestar fartölvur nú til dags eru með innbyggðar myndavélar, sem forritin nota og taka myndir af fólki í stofunni heima hjá sér, hvað sem það er að gera þá stundina.

Graham Cluley, sem starfar hjá tölvuöryggisfyrirtæki í Bretlandi, segir í viðtali við BBC, að fólk verði að fara varlega séu þeir að nota tölvur sem þeir eiga ekki sjálfir, því það sé aldrei að vita hvaða forrit séu í tölvunni. Þannig sé hægt að lágmarka áhættuna með því að gera ekki persónulega hluti fyrir framan tölvuna.

Ekki er vitað hvort samskonar tölvuleigur séu hér á landi og þá hvort slíkur búnaður sé í þannig tölvum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×